Nú hafa 35.000 rafbílar af gerðinni Nissan Leaf selst í Bandaríkjunum. Þessi áfangi náðist í síðustu viku, rétt fyrir „tengladaginn“ (e. National Plug In Day) sem haldinn var hátíðlegur vestanhafs um helgina. Söluaukningin frá fyrra ári er 317%, sem helgast væntanlega m.a. af því að farið var að framleiða bílana í Bandaríkjunum, auk þess sem verðið á þeim lækkaði. Aukin umhverfisvitund er ekki sögð helst ástæða þess að fólk vestra velur Nissan Leaf, heldur hitt hversu ódýr bíllinn er í rekstri, kraftmikill og skemmtilegur í akstri.
(Sjá frétt á HybridCars.com 27. september).
Greinasafn fyrir merki: USA
Grænum útförum fjölgar
Sífellt fleiri Bandaríkjamenn kjósa grænar útfarir í stað hefðbundinna, þó að enn séu þær aðeins lítill hluti af heildinni. Nú eru starfræktir 30 grænir kirkjugarðar í Bandaríkjunum, þar sem fylgt er sérstökum reglum til að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif greftrunarinnar. Öllum umbúnaði er haldið í lágmarki, líkkistur ekki notaðar eða þá kistur úr efnum sem brotna hratt niður í náttúrunni, líksmurningarvökvar ekki notaðir o.s.frv. Áætlað er að árlega séu rúmlega 60.000 tonn af stáli og um 180 milljónir lítra af líksmurningarvökvum grafin í jörð með látnu fólki. Þetta efni myndi duga til að byggja 8 Eiffelturna og fylla 8 sundlaugar í fullri stærð.
(Sjá frétt PlanetArk í dag).
Stóraukin sala á vottuðu kaffi vestanhafs
Sala á vottuðum kaffibaunum í Bandaríkjunum og í Kanada jókst verulega á síðasta ári. Þannig jókst innflutningur á réttlætismerktum baunum (e. Fairtrade) til þessara landa um 18% frá árinu áður og nam samtals um 74.000 tonnum. Alls runnu 32 milljónir dollara (tæplega 3,8 milljarðar ísl. kr.) af söluandvirðinu til samfélagsverkefna í heimahögum framleiðenda. Þá náði kaffi með vottun samtakanna Rainforest Alliance 4,5% markaðshlutdeild á heimsvísu á síðasta ári. Árið 2011 var þetta hlutfall 3,3%, og aðeins 1,5% árið 2009. Á árinu 2012 voru seld samtals 375.000 tonn af kaffi með slíka vottun.
(Sjá frétt PlanetArk í dag).
Býflugnabændur kæra Umhverfisstofnun Bandaríkjanna
Hópur býflugnabænda og nokkur frjáls félagasamtök vestanhafs, þar á meðal Sierraklúbburinn, lögðu í gær fram kæru á hendur Umhverfisstofnun Bandaríkjanna fyrir að grípa ekki til verndaraðgerða vegna þeirrar hættu sem kærendur segja býflugnastofnum stafa af skordýraeitri af flokki neónikótínoíða. Í kærunni er þess m.a. krafist að stofnunin dragi til baka leyfi til notkunar á klóþíanidín og þíametoxam, sem bæði tilheyra þessum flokki eiturefna. Sérstaklega er kært fyrir útgáfu skilyrtra leyfa sem gera framleiðendum kleift að setja ný eiturefni á markað fyrr en ella, en síðustu ár munu tveir þriðju allra nýrra varnarefna í Bandaríkjunum hafa verið sett á markað á grunni slíkra leyfa. Neónikótínoíð hafa verið mikið notuð í Bandaríkjunum síðan um miðjan síðasta áratug og frá sama tíma hafa orðið mikil afföll á býflugnabúum. Dæmi eru um 50% fækkun á síðasta ári einu og sér. Framleiðendur efnanna benda hins vegar á að skaðsemi þeirra hafi ekki verið sönnuð.
(Sjá frétt PlanetArk í dag).