Norska garðvörukeðjan Plantasjen hefur samþykkt að greiða 400.000 norskar krónur (tæpar 9 millj. ísl. kr.) í sekt eftir að blý, þalöt og stuttar klórparafínkeðjur fundust í þremur af átta vörum frá fyrirtækinu, sem Umhverfisstofnun Noregs (Klif) lét greina í reglubundnu eftirliti. Vörurnar sem um ræðir voru litskrúðug ljósasería, garðdót og garðhanskar fyrir börn; allar fluttar inn frá Asíu. Auk sektarinnar voru 500.000 norskar krónur af söluandvirði gerðar upptækar (rúmar 11 millj. ísl. kr).
(Sjá frétt á heimasíðu Klif í morgun).
Greinasafn fyrir merki: þalöt
Manngerð efni ógna heilsu jarðarbúa
Manngerð efni í neytendavörum eiga sinn þátt í mikilli fjölgun sjúkdómstilfella í börnum. Undir þetta falla m.a. vansköpun við fæðingu, hvítblæði, heilaæxli og jafnvel einhverfa. Þetta kemur fram í skýrslu sem unnin var fyrir stofnanir Sameinuðu þjóðanna og birt var í gær. Í skýrslunni er sjónum beint að hormónaraskandi efnum, svo sem þalötum og BPA. Þar kemur fram að gríðarlegur fjöldi slíkra efna sé í notkun, án þess að menn hafi nokkra yfirsýn yfir áhrif þeirra á umhverfi og heilsu, hvað þá yfir samverkandi áhrif þar sem um slíkt er að ræða. Þessi áhrif kunni að vera verulega vanmetin. Auk fyrrnefndra áhrifa á heilsufar barna geti þessi efni átt sinn þátt í útdauða einstakra dýrategunda, minnkandi sæðisgæðum karlmanna, ófrjósemi kvenna, krabbameini í brjóstum og blöðruhálskirtli, sykursýki, astma, offitu, lesblindu, Alzheimer og Parkinson, svo dæmi séu tekin. Hér sé um að ræða hnattræna ógn sem bregðast þurfi við.
(Sjá frétt PlanetArk í dag).
Þalöt í kynlífsleikföngum
Kynlífsleikföng innihalda í sumum tilvikum mikið af þalötum, sem m.a. eru talin geta truflað hormónastarfsemi líkamans, haft skaðleg áhrif á lifur o.s.frv. Þalöt hafa verið notuð sem mýkingarefni í PVC-plast, en styrkur þeirra er mjög mismunandi eftir framleiðendum. Eins losnar mismikið af þalötum úr vörunni eftir því hvernig hún er notuð. Danska upplýsingamiðstöðin um umhverfi og heilsu ráðleggur fólki að kaupa kynlífsleikföng þar sem tilgreint er á umbúðum að varan innihaldi ekki þalöt, eða spyrja seljandann um efnainnihald vörunnar.
(Sjá frétt á Forbrugerkemi.dk 5. febrúar).
Hættuleg efni í tískufatnaði
Margir af stærstu fataframleiðendum heims nota krabbameinsvaldandi og hormónatruflandi efni í framleiðslu sinni. Í umfangsmikilli könnun á vegum Greenpeace sem sagt var frá í gær fundust efni á borð við þalöt, nónýlfenólethoxýlat (NPE) og amín, en öll þessi efni geta haft skaðleg áhrif á heilsu og frjósemi fólks í tiltölulega litlum skömmtum. Alls var skoðuð 141 flík og reyndust 63% þeirra innihalda efni af þessu tagi. Þetta gilti jafnt um ódýrari fatamerki á borð við Zara, Jack&Jones, Only og Vero Moda – og dýrari merki á borð við Esprit og Benetton og sömuleiðis Armani og Calvin Klein. Efni sem þessi eru ekki nauðsynleg í fataiðnaði og finnast t.d. ekki í umhverfismerktum fatnaði.
(Sjá frétt á heimasíðu Greenpeace í gær).
Hormónaraskandi efni í öllum?
Kvikasilfur, kadmíum, kótínín og þalöt voru meðal þeirra efna sem fundust í 4.000 þvag- og hársýnum frá mæðrum og börnum þeirra í 17 Evrópulöndum sem tóku þátt í rannsókn sem sagt var frá á ráðstefnu á Kýpur í síðustu viku. Í 6 af þessum löndum var einnig leitað að bisfenól A, parabenum og tríklósan, og reyndust þessi efni einnig vera til staðar í sýnunum. Efnin eiga það sameiginlegt að vera hormónaraskandi og geta þannig átt þátt í margs konar alvarlegum kvillum. Talsmenn efnaiðnaðarins telja ekki ástæðu til að hafa áhyggjur af þessum niðurstöðum þar sem styrkur efnanna hafi verið undir hættumörkum. Samtök um heilsufar almennings eru á öðru máli og benda á að þessi efni eigi ekki að vera til staðar í líkama fólks, auk þess sem áhrif þeirra til langs tíma kunni að vera vanmetin og of lítið sé vitað um samlegðaráhrif efnanna (kokkteiláhrif).
(Sjá frétt EurActive 26. október).
Þalöt og þungmálmar í plastsandölum
Margar tegundir plastsandala innihalda efni sem geta verið skaðleg umhverfi og heilsu. Í nýlegri könnun Sænska efnaeftirlitsins kom í ljós að 13 skópör af 30 innihéldu hættuleg efni á borð við þalöt, blý og kadmíum. Engar reglur eru í gildi um efnainnihald skótaus, en hætta er talin á að þalöt í skóm hafi skaðleg áhrif á heilsu fólks til lengri tíma litið, einkum þegar þau bætast við þalöt sem finnast í öðrum neytendavörum sem fólk umgengst daglega. Mest er þó hættan fyrir þá sem ganga berfættir í skónum og flýta þannig fyrir upptöku efnanna í líkamann. Þalöt geta truflað hormónastarfsemi og haft áhrif á frjósemi.
(Sjá frétt forbrugerkemi.dk 22. október).