Um 3/4 af þekktum olíu- og gaslindum liggi óhreyfðar

Klima2-66vbey_MLeAðeins má nýta um 25% af þekktum olíu- og gaslindum í heiminum ef takast á að halda hlýnun jarðar innan við 2°C frá því sem var fyrir iðnbyltingu. Hin 75 prósentin verða að liggja óhreyfð eða eru með öðrum orðum „óbrennanlegt kolefni“. Þetta kemur fram í drögum að 3. hluta 5. stöðuskýrslu Vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) sem kemur út 12. apríl nk. Hér er einungis átt við þekktar lindir sem talið er fjárhagslega og tæknilega mögulegt að vinna olíu eða gas úr. Jafnframt gefa fyrstu drög skýrslunnar til kynna að minnka verði losun gróðurhúsalofttegunda um 40-70% fram til ársins 2030 frá því sem hún er í dag.
(Sjá frétt Aftenposten í gær).

Olíuslys á Norðurheimskautssvæðinu fyrirséð

Borpallur við GrænlandFullvíst má telja að olíuslys verði á Norðurheimskautssvæðinu ef leyft verður að bora þar eftir olíu. Þetta er mat sérfræðings sem stýrði rannsókn á Deepwater Horizon slysinu við oíuborpall BP á Mexíkóflóa vorið 2010. Slys á Norðurheimskautssvæðinu myndi auk heldur hafa langtum víðtækari afleiðingar en slys sunnar á hnettinum, þar sem niðurbrot olíunnar mun taka nokkra áratugi í svo köldum sjó, auk þess sem erfitt mun verða að beita tiltækum hreinsibúnaði við þær veðuraðstæður sem algengar eru á þessum slóðum. Olíuleit á svæðinu getur jafnvel skapað mikla hættu og haft áhrif á alla fæðukeðjuna.
(Sjá frétt The Guardian í dag).

Mikið af olíu á ströndum Louisiana þremur árum eftir slysið á Mexíkóflóa

Mexico gulf oil spillTæp 1.400 tonn af olíumenguðu efni voru fjarlægð af strandsvæðum Louisianafylkis í Bandaríkjunum á tímabilinu mars-ágúst á þessu ári, en það er 25 sinnum meira en á sama tímabili í fyrra. Skýringin á þessu er talin vera sú að fellibylurinn Ísak og fleiri óveður hafi skolað sandi ofan af olíuhaugum sem grafist höfðu niður í fjöruna. Enn eru rúmir 300 km af strandlengju Louisiana sagðir mengaðir af olíu eftir stærsta olíuslys sögunnar sem hófst með sprengingu í olíuborpalli BP á Mexíkóflóa 20. apríl 2010. Gert er ráð fyrir dómsúrskurði snemma á næsta ári um það hversu háa sekt BP þurfi að greiða vegna slyssins.
(Sjá frétt PlanetArk í dag).

Shell í vanda við Alaska

67519Í framhaldi af strandi Kulluk olíupallsins við Sitkalidakeyju við Alaska á nýársnótt eykst nú þrýstingur á ríkisstjórn Baracks Obama að fresta öllum frekari áætlunum um olíuboranir á Norðurheimskautssvæðinu. Forsvarsmenn olíufélagsins Shell, sem er eigandi pallsins, leggja á það áherslu að strandið hafi átt sér stað við flutning á pallinum og hafi ekkert með olíuboranir að gera sem slíkar. Umhverfisverndarsamtök benda hins vegar á að strandið sé sönnun þess að olíufélög geti ekki fyrirbyggt umhverfisslys í tengslum við olíuvinnsluna. Frá því á árinu 2005 hefur Shell varið um 4,5 milljörðum dollara (um 600 milljörðum ísl. kr.) í undirbúning olíuvinnslu á norðurheimskautssvæðinu við Alaska, en enn hefur ekki reynst unnt að hefja boranir.
(Sjá frétt PlanetArk 4. janúar).