Sænska fyrirtækið Box of energy setti nýlega upp fyrsta orkuboxið í Svíþjóð, nánar tiltekið á eyjunni Orust norðan við Gautaborg. Boxið getur geymt 20 kWst af raforku og þannig gert það mögulegt að nýta sólarorku þótt dimmt sé orðið. Hægt verður að kaupa boxin í mismunandi útfærslum með 10-220 kWst geymslugetu. Tesla hefur hingað til verið þekktasti söluaðili tækni til að geyma orku í heimahúsum, en „orkuveggur“ fyrirtækisins fór í almenna sölu á liðnu vori. Fleiri aðilar eru að hasla sér völl á þessum markaði, enda búist við mjög aukinni eftirspurn á næstu misserum samfara aukinni framleiðslu á raforku til eigin nota, svo sem með sólarsellum og vindmyllum.
(Sjá frétt NyTeknik 17. september).