Fyrsta vetnisstöðin við verslunarmiðstöð

SainsburySainsbury’s verslunarkeðjan mun síðar á þessu ári verða fyrsta fyrirtækið í Bretlandi sem kemur upp vetnisstöð fyrir viðskiptavini á bílastæði verslunarmiðstöðvar. Fjöldi vetnisbíla á götum Bretlands vex frá degi til dags og að sögn talsmanns Sainsbury’s er það sérstakt ánægjuefni að vera fyrstur til að bjóða viðskiptavinum upp á þjónustu af þessu tagi. Stöðin er hluti af verkefninu London Hydrogen Network Expansion (LHNE) sem er styrkt af ríkisstjórninni. Stjórnvöld í Bretlandi ákváðu nýlega að verja 11 milljónum sterlingspunda (tæplega 2,2 milljörðum ísl. kr.) til að byggja upp innviði fyrir vistvæn ökutæki í Bretlandi, þar af 7 milljónum punda í uppsetningu allt að 7 áfyllingarstöðva fyrir vetnisbíla.
(Sjá frétt EDIE 28. október).

Hleðslustöð á hjólum

26188Hreyfanleg hleðslustöð fyrir rafbíla verður framvegis hluti af þeirri neyðarþjónustu sem fyrirtækið RAC í Bretlandi býður viðskiptavinum sínum. Þjónustubílar fyrirtækisins verða búnir 5 kW hleðslustöð til að hlaða rafbíla sem verða rafmagnslausir á miðri leið. Hálftíma hleðsla dugar fyrir 24 km akstur, sem ætti að koma viðskiptavininum heim eða á næstu hleðslustöð. Ef á þarf að halda er hægt að fylla geyminn á u.þ.b. 4 klst. RAC segir hleðslustöðina vera svar fyrirtækisins við ört stækkandi rafbílaflota Bretlands, en í dag eru rafbílanotendur í Bretlandi rúmlega 9.000 talsins.
(Sjá frétt EDIE í dag).

Sparneytnari bílar og meiri atvinna

Green carUm 400.000 ný störf gætu skapast í Evrópu ef samkomulag næst innan Evrópusambandsins um hertar reglur um orkunýtni bifreiða, en fyrsta atkvæðagreiðslan um tillögu í þessa veru fer fram á Evrópuþinginu í dag. Í skýrslu sem breskir ráðgjafar hafa unnið fyrir sambandið kemur einnig fram að með innleiðingu nýju reglnanna myndu íbúar Evrópusambandsríkja spara 57-79 milljarða evra (9-13 þúsund milljarða ísl. kr.) í eldsneytiskaupum á ári hverju, með samsvarandi aukningu kaupmáttar á öðrum sviðum. Í umræddum tillögum er gert ráð fyrir að koltvísýringslosun nýrra bíla verði að meðaltali 95 g/km árið 2020, samanborið við 130 g/km sem stefnt er að fyrir árið 2015.
(Sjá frétt PlanetArk í gær).

Tveir jafngrænir bílar

Volkswagen Passat TSI Ecofuel og tengiltvinnbíllinn Volvo V60 urðu efstir og jafnir í vali samtakanna Gröna bilister í Svíþjóð á umhverfisvænsta (s. miljöbästa) bílnum 2013. Samtökin hafa valið grænasta bílinn á hverju ári frá 1994, en þetta er í fyrsta sinn sem tveir bílar deila með sér toppsætinu. Samtals voru 43 bílar tilnefndir að þessu sinni. Valið var í höndum fjögurra dómnefnda. Ein var skipuð barnafjölskyldum, önnur fólki 65 ára og eldra, sú þriðja bílablaðamönnum og sú fjórða umhverfisstjórum. Til að vera með í valinu þurfa bílar að uppfylla skilgreiningu stjórnvalda á visthæfum bílum, vera með hæstu einkunn í öryggisprófunum (Euro NCAP) og vera tilbúnir til afgreiðslu 1. janúar 2013. Listi Gröna bilister er sagður hafa mikil áhrif á bílasölu, bæði í Svíþjóð og í öðrum löndum.
(Sjá nánar á heimasíðu Gröna bilister 28. september).

Leigubílar á grænu eldsneyti fá forgang á Arlanda

Frá því í júlí 2011 hafa allir leigubílar sem aka frá Arlandaflugvelli við Stokkhólm þurft að uppfylla skilgreiningu stjórnvalda á grænum bílum. Nú hyggst Swedavia sem sér um rekstur flugvallarins hins vegar ganga skrefi lengra til að ýta undir orkuskipti í samgöngum. Framvegis fá leigubílar sem ganga fyrir visthæfu eldsneyti forgang í biðröðinni utan við flugvöllinn, umfram hina „grænu leigubílana“.
(Sjá nánar í fréttatilkynningu Swedavia 21. sept. sl).