Um 400.000 ný störf gætu skapast í Evrópu ef samkomulag næst innan Evrópusambandsins um hertar reglur um orkunýtni bifreiða, en fyrsta atkvæðagreiðslan um tillögu í þessa veru fer fram á Evrópuþinginu í dag. Í skýrslu sem breskir ráðgjafar hafa unnið fyrir sambandið kemur einnig fram að með innleiðingu nýju reglnanna myndu íbúar Evrópusambandsríkja spara 57-79 milljarða evra (9-13 þúsund milljarða ísl. kr.) í eldsneytiskaupum á ári hverju, með samsvarandi aukningu kaupmáttar á öðrum sviðum. Í umræddum tillögum er gert ráð fyrir að koltvísýringslosun nýrra bíla verði að meðaltali 95 g/km árið 2020, samanborið við 130 g/km sem stefnt er að fyrir árið 2015.
(Sjá frétt PlanetArk í gær).