Danska ríkisstjórnin fjármagnar „Efnavaktina“

kemiwatchDanska ríkisstjórnin og Samheldniflokkurinn (d. Enhedslisten) hafa lagt fram 17,4 milljónir danskra króna, (rúmlega 350 millj. ísl. kr.) til að koma á fót sérstakri „Efnavakt“ sem aðstoða mun neytendur við að forðast skaðleg efni í daglegu lífi. Efnavaktin (KemiWatch) er samstarfsverkefni stjórnvalda og dönsku neytendasamtakanna Tænk, en samtökin taka að sér að skrá þau skaðlegu efni sem eru í umferð, útskýra skaðsemi þeirra og benda á hvar þau sé helst að finna. Í verkefninu mun einnig fara fram umsvifamikil greining á neytendavörum þar sem skoðað er hvort innihaldslýsingar séu réttar. Með því er jafnframt þrýst á framleiðendur að stunda gegnsæ viðskipti. Neytendasamtökin munu halda úti sérstakri heimasíðu fyrir verkefnið og starfrækja innhringiþjónustu til að aðstoða neytendur við að taka upplýstar ákvarðanir.
(Sjá frétt á heimasíðu danska umhverfisráðuneytisins 10. október).

Skaðleg efni finnast enn í blautþerrum

vaadservietter_huggies_800x387Nýjar blautþerrur frá Huggies innihalda rotvarnarefnið fenóxýetanól, en eldri gerð af þessum þerrum var tekin af markaði þegar í ljós kom að þær innihéldu rotvarnarefnið metýlísóthiazólínon (MI), sem er þekktur ofnæmisvaldur. Vísindanefnd ESB hefur ekki komist að niðurstöðu um það hvort öruggt sé að nota fenóxýetanól í neytendavörur og reyndar telja frönsk heilbrigðisyfirvöld óráðlegt að nota efnið í vörur sem notaðar eru á bleyjusvæði barna. Dönsku neytendasamtökin Tænk furða sig á því að Huggies hafi ákveðið að skipta MI út fyrir annað efni sem kann einnig að vera skaðlegt. Í yfirlýsingu frá Huggies kemur hins vegar fram að hætt verði að nota fenóxýetanól í þessar vörur frá og með næsta ári.
(Sjá frétt Tænk 6. október).

Þalöt í barnavagni

barnevogn-scandia800xMikið magn af díetýlhexýl þalati (DEHP) mældist í skyggni barnavagns af gerðinni Scandia Run í rannsókn sem dönsku neytendasamtökin Tænk stóðu nýlega fyrir. Skyggnið innihélt um 20% DEHP, en leyfilegur styrkur þalata í leikföngum og öðrum ungbarnavörum er 0,1% skv. reglum ESB. Í framhaldi af rannsókninni hefur Tænk sent kæru til Umhverfisstofnunar Danmerkur (Miljøstyrelsen) og hvatt til þess að vagninn verði tekinn úr sölu. DEHP er eitt af skaðlegustu þalötunum og getur m.a. haft neikvæð áhrif á þroska barna. Þalöt eru notuð sem mýkingarefni í plast en eru ekki bundin plastinu og geta því auðveldlega borist í lífverur við snertingu. Miljøstyrelsen hefur ekki enn brugðist við ábendingu Tænk, en einhverjar verslanir hafa þegar tekið vagninn úr sölu í framhaldi af þessum niðurstöðum.
(Sjá frétt Tænk 31. maí).

Sólhlífðarföt í stað sólarvarnar

UVSólhlífðarfatnaður fyrir börn er laus við skaðleg efni samkvæmt nýlegri könnun dönsku neytendasamtakanna Tænk. Hins vegar finnast hormónaraskandi efni í flestum tegundum sólarvarnar sem markaðsett er fyrir börn. Venjulegur fatnaður inniheldur oft á tíðum skaðleg efni, en sólhlífðarfatnaður virðist innihalda mun minna eða nánast ekkert af slíku. Tænk mælir því með slíkum fatnaði sem eiturefnafríum valkosti sem verndar börn gegn útfjólubláum geislum sólar og sparar foreldrum um leið fyrirhöfnina að bera sólarvörn á börnin.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk 15. maí).

Hættuleg efni í burðarpokum

Burðarpoki crNokkrar tegundir burðarpoka fyrir börn innihalda efni sem talin eru líklegir krabbameinsvaldar, geta truflað hormónastarfsemi líkamans og dregið úr frjósemi. Þetta kom í ljós í könnun dönsku neytendasamtakanna Tænk í síðasta mánuði. Þar voru tólf mismunandi vörur af þessu tagi teknar til skoðunar og reyndust þrjár þeirra innihalda hættuleg efni. Þetta voru burðarpokar af tegundunum Britax og Stokke MyCarrier og burðarsjalið Babylonia BB-sling. Tvær þær fyrrnefndu innhéldu varasöm eldvarnarefni og í burðarsjalinu leyndust nonýlfenólethoxýlöt (NPE). Nýlega var samþykkt að banna notkun tiltekinna eldvarnarefna í leikföng innan ESB en bannið nær ekki til burðarpoka, enda þótt börn komist ekki síður í nána snertingu við þá en við leikföngin.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk í dag).

Hvernig forðast má PFOA

PFOADönsku neytendasamtökin (Forbrugerrådet) birtu á dögunum 9 góð ráð fyrir neytendur sem vilja forðast PFOA (perflúoroktansýru) og önnur skyld flúorsambönd sem víða finnast í neytendavörum og eru skaðleg umhverfi og heilsu. Þessi efni hrinda frá sér vatni, fitu og óhreinindum og eru því talsvert notuð í ýmiss konar yfirborðsmeðhöndlun, m.a. við framleiðslu á eldhúsáhöldum, útvistarfatnaði og húsgögnum. Meðal þess sem Forbrugerrådet ráðleggur er að fólk geri hreint vikulega, þvoi sér oft um hendur, borði heimsendar pizzur af diskum en ekki beint úr kassanum, þvoi klæðnað áður en hann er tekinn í notkun, forðist einnota ílát, kynni sér kröfur Svansins og spyrji í verslunum hvort varan sé húðuð með flúorsamböndum.
(Sjá 9 góð ráð á heimasíðu dönsku neytendasamtakanna 24. október)

Áhyggjur af rotvarnarefni í barnakremi

Barnakrem TænkÍ nýlegri könnun danska neytendablaðsins Tænk kom í ljós að 9 af 26 tegundum barnakrema innihéldu rotvarnarefnið fenoxýetanól, sem hefur þann kost að vera hvorki ofnæmisvaldur né hormónaraskandi, en er hins vegar talið geta valdið lifrarskaða við langvarandi notkun. Samkvæmt gildandi reglum í Evrópu mega snyrtivörur innihalda allt að 1% fenoxýetanól, en Frakkar hafa beitt sér fyrir því að þessi öryggismörk verði færð niður í 0,4% til að tryggja að viðkomandi vörur séu öruggar fyrir börn. Öruggasta leiðin er þó að fara sparlega með snyrtivörur þegar börn eiga í hlut og nota lífrænt vottaðar vörur.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk í gær).

Flúorsambönd í möffinsformum

Möffinsform TænkÍ rannsókn neytendablaðsins Tænk í Danmörku kom í ljós að tvö af tíu möffinsformum sem skoðuð voru reyndust innihalda flúrsambönd, sem óttast er að geti verið skaðleg umhverfi og heilsu. Umrædd efnasambönd eru notuð til að gera formin fitu- og vatnsfráhrindandi. Þau geta safnast upp í líkamanum og hugsanlega stuðlað að krabbameinsvexti, ófrjósemi, ADHD o.fl. Ekki hefur verið sýnt fram á að flúorsambönd í matarumbúðum berist í matinn, en Dönsku neytendasamtökin (Forbrugerrådet) álíta engu að síður að efni af þessu tagi eigi ekkert erindi í matarumbúðir. Um er að ræða efnasambönd á borð við teflon, en flúor í tannkremi er allt annars eðlis.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk 30. nóvember).