Vísindamenn við Harvardháskóla hafa þróað nýja gerð rafgeymis þar sem algengt og ódýrt lífrænt efni er notað í stað sjaldgæfra málma. Um er að ræða flæðisrafgeymi þar sem vökvi tekur í sig rafhleðslu í sérstökum rafbreyti (e. electrochemical conversion hardware) og er síðan geymdur hlaðinn í tanki. Þegar nota þarf orkuna flæðir vökvinn til baka í gegnum rafbreytinn yfir í annan tank þar sem hann bíður eftir nýrri hleðslu. Stærð tankanna er óháð stærð rafbreytisins, ólíkt því sem gerist í venjulegum rafhlöðum þar sem báðir hlutar eru sambyggðir. Lífræna efnið sem tekur við hleðslunni er kínón, en það er að finna í olíuafurðum og í fjölmörgum plöntum, m.a. í rabarbara. Þessi nýja tækni gæti boðað nýja tíma í nýtingu endurnýjanlegrar orku, svo sem vindorku og sólarorku, þar sem erfiðleikar við geymslu orkunnar hafa staðið í vegi fyrir því að hægt væri að jafna sveiflur í framboði og eftirspurn. Fræðilega væri hægt að nota tæknina hvort sem er í stórum stíl sem hluta af raforkukerfi á landsvísu eða í heimilisstærð.
(Sjá frétt á heimasíðu Harvardháskóla 8. janúar).
Ólyginn sagði mér að það verði skammtafræðin sem leysi þessi raforku-flutnings-geymslu-mál fyrir okkur (ásamt mörgu öðru). Minn litli skilningur á þessu gefur mér þá mynd að maður verði í framtíðinni með óheyrilegt magn rafmagns í „nestisboxi“ og geti plöggað í hvað sem er.