Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ákvað í gær að banna notkun skordýraeiturs sem inniheldur neónikótínoíð. Bannið kemur í framhaldi af áliti Matvælaöryggisstofnunar Evrópu (EFSA) frá því í janúar þess efnið að efnið stefni býflugum í óásættanlega hættu. Ekki var meirihluti fyrir banninu í sérfræðinganefnd sambandsins um fæðukeðjur og heilsu dýra, en framkvæmdastjórnin vísaði þeirri niðurstöðu til sérstakrar áfrýjunarnefndar. Þar greiddu 15 þjóðir atkvæði með banni en 8 voru á móti. Þar sem þetta telst ekki nægur meirihluti var málinu vísað aftur til framkvæmdastjórnarinnar sem tilkynnti ákvörðun sína í gær eins og fyrr segir. Litið er á bannið sem tímamótasigur fyrir umhverfisverndarsamtök en að sama skapi mikinn ósigur fyrir framleiðendur og stjórnvöld þeirra landa sem beittu sér hvað harðast gegn banni. Þar var Bretland framarlega í flokki.
(Sjá frétt The Guardian í gær).
Greinasafn fyrir merki: varnarefni
Býflugnabændur kæra Umhverfisstofnun Bandaríkjanna
Hópur býflugnabænda og nokkur frjáls félagasamtök vestanhafs, þar á meðal Sierraklúbburinn, lögðu í gær fram kæru á hendur Umhverfisstofnun Bandaríkjanna fyrir að grípa ekki til verndaraðgerða vegna þeirrar hættu sem kærendur segja býflugnastofnum stafa af skordýraeitri af flokki neónikótínoíða. Í kærunni er þess m.a. krafist að stofnunin dragi til baka leyfi til notkunar á klóþíanidín og þíametoxam, sem bæði tilheyra þessum flokki eiturefna. Sérstaklega er kært fyrir útgáfu skilyrtra leyfa sem gera framleiðendum kleift að setja ný eiturefni á markað fyrr en ella, en síðustu ár munu tveir þriðju allra nýrra varnarefna í Bandaríkjunum hafa verið sett á markað á grunni slíkra leyfa. Neónikótínoíð hafa verið mikið notuð í Bandaríkjunum síðan um miðjan síðasta áratug og frá sama tíma hafa orðið mikil afföll á býflugnabúum. Dæmi eru um 50% fækkun á síðasta ári einu og sér. Framleiðendur efnanna benda hins vegar á að skaðsemi þeirra hafi ekki verið sönnuð.
(Sjá frétt PlanetArk í dag).
Neónikótínoíð ekki sett á bannlista
Síðastliðinn föstudag komu fulltrúar Breta, Þjóðverja og nokkura fleiri aðildarríkja Evrópusambandsins í veg fyrir að sérfræðinganefnd sambandsins um fæðukeðjur og heilsu dýra samþykkti tillögu Framkvæmdastjórnar ESB um tveggja ára bann við notkun neónikótínoíðs sem skordýraeiturs, þrátt fyrir að Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) hafi gefið út það álit að eitrið stefni býflugum í óásættanlega hættu og því sé ekki forsvaranlegt að nota það við ræktun plöntutegunda sem býflugur sækja í. Framleiðendur eitursins fagna þessari niðurstöðu, en umhverfisverndarsinnar og ýmsir vísindamenn og stjórnmálamenn eru að sama skapi vonsviknir. Býflugur skipta gríðarlegu máli fyrir fæðuframleiðslu í heiminum, en framleiðendur eitursins telja þó ástæðulaust að banna það, þar sem ekki liggi fyrir sannanir um skaðsemi þess.
(Sjá frétt The Guardian 15. mars).
Skordýraeitur ógnar býflugum
Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) gaf í gær út það álit að skordýraeitur með virka efnið neonicotinoid stefni býflugum í óásættanlega hættu og því sé ekki forsvaranlegt að nota það við ræktun plöntutegunda sem býflugur sækja í. Um er að ræða algengasta skordýraeitur í heimi og því gæti þessi yfirlýsing haft mikil áhrif. Það eru hins vegar stjórnvöld í hverju landi sem taka ákvörðun um hugsanlegt bann við notkun efnisins. Umhverfisverndarsinnar fagna þessum tímamótum og segja þau jafngilda dauðadómi yfir skordýraeitri af þessu tagi, en fulltrúar framleiðenda telja áhættuna ekki fullsannaða og vara við oftúlkun varúðarreglunnar. David Goulson, prófessor við Háskólann í Stirling í Skotlandi segir þetta vekja upp spurningar um hvað hafi verið í gangi þegar notkun efnanna var fyrst leyfð. Rachel Carson hafi skrifað „Raddir vorsins þagna“ fyrir 50 árum, en við séum ekki enn búin að læra neitt.
(Sjá frétt The Guardian í gær).
Dregið úr varnarefnanotkun í Danmörku
Ida Auken umhverfisráðherra Danmerkur kynnti í vikunni nýja varnaefnaáætlun dönsku ríkisstjórnarinnar undir yfirskriftinni Beskyt vand, natur og sundhed. Þar er gert ráð fyrir hröðum samdrætti í notkun varnarefna, en markmiðið er að ná fram 40% samdrætti fyrir árslok 2015. Ætlunin er að verja 253 milljónum danskra króna (rúmum 5,5 milljörðum ísl. kr.) til að ná þessu markmiði. Mikilvægur liður í áætluninni er nýtt varnarefnagjald, sem gerir það að verkum að skaðminni efni verða hlutfallslega ódýrari í innkaupum.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen 20. nóvember).
Hunangsflugur í hættu vegna efnanotkunar
Bresk rannsókn sem sagt var frá í tímaritinu Nature um síðustu helgi bendir til að notkun skordýraeiturs í landbúnaði geti spillt afkomumöguleikum hunangsflugubúa, bæði vegna þess að dánartíðni hækkar og afköst hverrar flugu við fæðuöflun minnka. Verðmæti þeirrar vistfræðilegu þjónustu sem hunangsflugur og aðrir frjóberar veita er áætlað um 200 milljarðar bandaríkjadala á ári. Hunangsflugum og býflugum hefur fækkað mikið í Evrópu og Norður-Ameríku á síðustu árum, en sitt sýnist hverjum um ástæðurnar.
(Sjá frétt PlanetArk 22. október).
Óábyrg efnanotkun ógnar heilsu manna
Brýnt er að grípa til aðgerða til að draga úr þeirri hættu sem heilsu manna stafar af gáleysislegri efnanotkun. Þessi hætta fer jafnvel vaxandi eftir því sem framleiðsla, notkun og förgun slíkra efna færist í auknum mæli frá Vesturlöndum til þróunarlandanna. Þannig er áætlað að árlegur kostnaður vegna eitrana af völdum varnarefna í Afríku sunnan Sahara sé orðinn hærri en sem nemur öllum framlögum Vesturlanda til úrbóta í heilbrigðismálum svæðisins að frátöldum framlögum vegna HIV. Með bættri stjórnun þessara mála mætti draga verulega úr kostnaði, bæta lífsskilyrði fólks, vernda vistkerfi, draga úr mengun og stuðla að grænni tækniþróun. Allt þetta og margt fleira kemur fram í skýrslu Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNEP), Global Chemicals Outlook, sem birt var sl. miðvikudag.
(Sjá frétt á heimasíðu UNEP 5. september sl).