Vatíkanið og Sameinuðu þjóðirnar vara við loftslagsbreytingum

pope_160Vatíkanið og Sameinuðu þjóðirnar hafa sameiginlega varað fólk við afleiðingum loftslagsbreytinga og fordæmt raddir efasemdarmanna sem halda því fram að breytingar á loftslagi séu ekki af mannavöldum. Ban Ki-Moon, aðalframkvæmdastjóri SÞ, og Frans páfi ræddu málið fyrir setningu ráðstefnu um loftslagsmál undir yfirskriftinni „Siðferðilegar víddir loftslagsbreytinga og sjálfbærrar þróunar“, þar sem vísindamenn og trúarleiðtogar leiddu saman hesta sína. Í yfirlýsingu ráðstefnunar kemur fram að manngerðar loftslagsbreytingar séu vísindalegur raunveruleiki, að það sé siðferðisleg og trúarleg skylda mannkyns að bregðast við og að COP-fundurinn í París í desember gæti orðið síðasta tækifærið til að semja um aðgerðir til að fyrirbyggja að meðalhitastig jarðar hækki um meira en 2°C. Páfinn hyggst gefa út páfabréf á næstunni til að koma þeim skilaboðum á framfæri að umhverfisvernd sé ófrávíkjanleg krafa og heilög skylda hins trúaða samfélags. Miklar vonir eru bundnar við að páfabréfið hafi áhrif á viðræðurnar í París í desember.
(Sjá frétt PlanetArk 29. apríl).