Stjórn Háskólans á Þelamörk í Noregi hefur samþykkt að skólinn verði fyrsti norski réttlætisháskólinn. Nú þegar hafa allnokkrir skólar í Noregi fengið viðurkenningu sem réttlætisskólar (e. Fairtrade School), en enginn háskóli er í þeim hópi. Til þess að ná þessu markmiði þarf skólinn m.a. að tryggja tiltekið framboð af réttlætismerktum vörum á fundum á vegum skólans, á kaffistofum og annars staðar þar sem vörur á borð við kaffi, sykur og te eru á boðstólum. Þá þarf að vera starfandi sérstakur réttlætisstýrihópur starfsmanna og stúdenta, svo eitthvað sé nefnt.
(Sjá frétt á heimasíðu Fairtrade í Noregi 17. desember).
Greinasafn fyrir merki: Noregur
Með mengun í blóðinu
Í rannsókn sem gerð var nýlega á fjórum ungum konum sem þekktar eru úr sviðsljósi norskra fjölmiðla kom í ljós að allar höfðu þær nokkurt magn mengunarefna í blóðinu. Rannsóknin var gerð í samvinnu við Svaninn og tímaritið Cygnus. Þó að styrkur efnanna hafi í flestum tilvikum verið lágur, vekur þetta upp spurningar um hugsanleg áhrif, þ.á.m. samverkandi áhrif til langs tíma. Vaxandi magn ýmissa mengunarefna í blóði fólks kann m.a. að stuðla að minnkandi frjósemi og aukinni tíðni ofnæmis og krabbameins. Mörg þessara efna safnast upp í líkamanum á langri ævi og skila sér auk þess til ungbarna með móðurmjólkinni. Ekki er auðvelt að greina uppruna efnanna, en þau getur m.a. verið að finna í vörum sem fólk notar þegar það þvær hendur sínar og hár, farðar sig eða burstar tennur.
(Sjá frétt í Dagbladet 23. nóvember).
Lífræn merking á matsölustöðum
Matsölustaðir í Noregi geta nú fengið sérstök merki til að sýna hversu mikið af hráefnum þeirra er lífrænt vottað. Til að fá gullmerki þurfa a.m.k. 90% af matnum sem keyptur er inn að vera með lífræna vottun. Silfurmerki fæst ef hlutfallið er a.m.k. 50% og bronsmerki við 15%. Merkingin er liður í að efla markað fyrir lífrænar vörur, en norsk stjórnvöld hafa sett sér það markmið að árið 2020 verði hlutfall lífrænna matvæla í Noregi komið í15%, bæði í framleiðslu og neyslu.
(Sjá nánar í frétt á heimasíðu Debio 19. sept. sl).
Vaxandi sala á lífrænum vörum
Sala á lífrænum vörum í norskum verslunum jókst um tæp 11% á fyrri helmingi þessa árs miðað við sama tíma í fyrra, þrátt fyrir litla sem enga aukningu á innanlandsframleiðslu. Heildarsalan á þessu tímabili var 555 milljónir norskra króna (tæpir 12 milljarðar ísl. kr). Mestur var vöxturinn í sölu á eggjum og barnamat, eða um 30%. Mjólkurvörur eru hins vegar langstærsti vöruflokkurinn á þessum markaði, en þar jókst salan milli ára um 5,7%. Gert er ráð fyrir áframhaldandi söluaukningu á síðari hluta ársins.
(Sjá nánar í fréttatilkynningu Landbúnaðarstofnunar Noregs í gær).
Noregur er rafbílaland nr. 1
Noregur er rafbílaland nr. 1 samkvæmt nýrri skýrslu frá sænsku samtökunum Gröna bilister. Það sem af er árinu hafa rúmlega 2.500 rafbílar verið seldir í Noregi, þar af 463 í ágúst (3,5% af öllum nýskráningum). Helstu ástæður þessarar miklu velgengni eru sagðar vera markvissar aðgerðir norskra stjórnvalda. Þar eru rafbílar undanþegnir virðisaukaskatti og skráningargjöldum, greiða lægri bifreiðagjöld, mega nota forgangsakreinar, greiða lægri eða enga vegtolla og fá ókeypis í bílastæði og bílaferjur. Hið opinbera styður einnig við uppbyggingu hleðslustöðva og annarra innviða, auk þess sem þeir sem aka rafbílum fá greidd hærri kílómetragjöld og 50% afslátt af skatti á bílahlunnindi.
(Sjá nánar í frétt á heimasíðu Gröna bilister í gær).