Sjávarrof opnar leið fyrir geislavirkan úrgang út í hafið

Seascale-011Geislavirkur úrgangur úr urðunarstaðnum Grigg í grennd við kjarnorkuendurvinnslustöðina í Sellafield á vesturströnd Englands mun að öllum líkindum sleppa út í hafið á næstu öld. Ástæðan er hækkað sjávarborð sem mun leiða til svo mikils landbrots að úrgangurinn standi eftir óvarinn fyrir ágangi sjávar. Samtals er þarna um að ræða um milljón rúmmetra af geislavirkum úrgangi og geislavirkum hergögnum sem hafa fallið til á síðustu 55 árum. Umhverfisstofnun Bretlands (EA) viðurkennir að staðsetning urðunarstaðsins hafi verið mistök og að í dag yrði slíkri starfsemi tæplega valinn staður svo nálægt hafi. Áætlun rekstraraðila Grigg um að urða þarna 800.000 rúmmetra af geislavirkum úrgangi til viðbótar er nú til skoðunar hjá umhverfisstofnuninni. Þess má geta að helmingunartími geislavirks efnis getur hlaupið á þúsundum ára.
(Sjá frétt the Guardian 20. apríl).

Strendur Síberíu hopa

MuostakhMikið sjávarrof hefur orðið á allra síðustu árum við strendur Síberíu samfara hækkun hitastigs. Vegna sífrera á strandsvæðum hafa þau staðið af sér ágang sjávar um aldir, en örlítil hækkun lofthita leiðir til nægjanlegrar þiðnunar sífrerans til að sjórinn nái yfirhöndinni. Vísindamenn frá Alfred Wegener stofnuninni hafa reiknað út að einnar gráðu hækkun meðalhitastigs yfir sumarmánuðina leiði til aukins sjávarrofs sem nemur 1,2 m á ári. Verst er ástandið á eyjunni Muostakh austur af óshólmum Lenu. Um 24% af flatarmáli eyjunnar hafa þegar tapast, og líkur eru á að hún molni niður og hverfi með öllu á næstu 100 árum.
(Sjá frétt ScienceDaily 29. október).