Hvaða eldsneyti er „óbrennanlegt“?

kolanama_160Um þriðjungur þekktra olíulinda, um helmingur jarðgass og meira en 80% af kolaforða heimsins er „óbrennanlegt kolefni“, sem þarf að liggja ósnert ef koma á í veg fyrir að hitastig jarðar hækki um meira en 2°C. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem sagt var frá í grein í Nature á dögunum, en í rannsókninni var leitast við að greina „óbrennanlegt kolefni“ eftir svæðum og tegundum eldsneytis. Samkvæmt þessu telst meirihluti af kolaforða Kína, Rússlands og Bandaríkjanna „óbrennanlegur“, svo og um 260 milljónir olíutunna úr lindum í Mið-Austurlöndum og um 60% jarðgass á sömu slóðum. Rannsóknin undirstrikar einnig að vinnsla jarðefnaeldsneytis á Norðurheimskautssvæðinu samrýmist ekki viðleitninni til að sporna gegn loftslagsbreytingum. Aðalhöfundur greinarinnar, Dr Christophe McGlade, hefur haft á orði að stjórnvöld sem hyggi á frekari vinnslu þessara auðlinda þurfi að svara þeirri spurningu hvaða eldsneytislindir á öðrum svæðum eigi að liggja ósnertar í staðinn.
(Sjá frétt Science Daily 7. janúar).

Jarðvegstippur við kóralrifið mikla

KóralrifStjórnvöld í Ástralíu hafa leyft að þremur milljónum rúmmetra af aur verði sturtað í hafið innan marka þjóðgarðsins sem umlykur kóralrifið mikla. Þetta er gert til að liðka til fyrir hafnarframkvæmdum við Abbot Point þar sem verið er að byggja stærstu kolaútskipunarhöfn í heimi, en þær framkvæmdir tengjast áformaðri kolavinnslu úr Galilee lægðinni í Queensland. Umhverfisverndarsinnar, vísindamenn og ferðaþjónustuaðilar hafa barist gegn þessari losun jarðefna í hafið, bæði vegna þeirra beinu áhrifa sem losunin kann að hafa á kóralrifin og vegna fyrirsjáanlega aukinnar skipaumferðar um svæðið. Þessir aðilar óttast jafnvel að rifin verði tekin af heimsminjaskrá UNESCO. Stjórnvöld hafa bent á það á móti að meira rask myndi fylgja öðrum hafnarframkvæmdum, að botninn á þessu svæði einkennist hvort sem er af sandi, seti og leir og að losunarstaðurinn sé ekki svo ýkja nálægt kóralrifunum, jafnvel þótt hann sé innan marka verndarsvæðisins.
(Sjá frétt The Telegraph í dag).