Jarðvegstippur við kóralrifið mikla

KóralrifStjórnvöld í Ástralíu hafa leyft að þremur milljónum rúmmetra af aur verði sturtað í hafið innan marka þjóðgarðsins sem umlykur kóralrifið mikla. Þetta er gert til að liðka til fyrir hafnarframkvæmdum við Abbot Point þar sem verið er að byggja stærstu kolaútskipunarhöfn í heimi, en þær framkvæmdir tengjast áformaðri kolavinnslu úr Galilee lægðinni í Queensland. Umhverfisverndarsinnar, vísindamenn og ferðaþjónustuaðilar hafa barist gegn þessari losun jarðefna í hafið, bæði vegna þeirra beinu áhrifa sem losunin kann að hafa á kóralrifin og vegna fyrirsjáanlega aukinnar skipaumferðar um svæðið. Þessir aðilar óttast jafnvel að rifin verði tekin af heimsminjaskrá UNESCO. Stjórnvöld hafa bent á það á móti að meira rask myndi fylgja öðrum hafnarframkvæmdum, að botninn á þessu svæði einkennist hvort sem er af sandi, seti og leir og að losunarstaðurinn sé ekki svo ýkja nálægt kóralrifunum, jafnvel þótt hann sé innan marka verndarsvæðisins.
(Sjá frétt The Telegraph í dag).

2020 rís á ný

Óvissa hefur ríkt síðustu vikur og mánuði um framtíð umhverfisfróðleikssíðunnar 2020.is. Nú hefur verið ákveðið að halda síðunni úti enn um sinn með daglegum uppfærslum og mun fyrsti umhverfisfróðleiksmoli haustsins birtast á morgun, þriðjudaginn 24. september.

Hlé á útgáfu 2020

Eins og glöggir lesendur hafa tekið eftir hefur 2020.is legið í dvala um nokkurt skeið. Viðhald vefsíðunnar er frístundaverkefni höfundar og verður því stundum að víkja þegar annríki er mikið í vinnu eða samkeppni mikil um frístundir. Hvort tveggja hefur gilt undanfarnar vikur. Vonir standa til að eitthvert lífsmark verði með síðunni næstu 2-3 vikur, en síðan tekur sumarleyfi við. Nánar verður greint frá þessu síðar.

Nissan og Fortum setja upp 50 hraðhleðslustöðvar

Bílaframleiðandinn Nissan og orkufyrirtækið Fortum hafa gengið frá samstarfssamningi um uppbyggingu innviða fyrir hraðhleðslu rafbíla. Settar verða upp 50 stöðvar á vel völdum stöðum við aðalvegi milli höfuðborga Norðurlandanna. Gert er ráð fyrir að á þessum stöðvum verði hægt að hlaða rafbíl á borð við Nissan LEAF upp í 80% á 20 mínútum. Verkefnið er liður í þróun Charge-and-drive hugmyndarinnar sem Fortum hefur unnið að um nokkurt skeið.
(Lesið fréttatilkynningu á vefsíðu Dagens Industri í gær).