Brýnt er að endurheimta skóga í hlíðum Kilimanjaro til að bæta vatnsbúskap svæðisins, að því er fram kemur í skýrslu Sameinuðu þjóðanna sem kynnt var í dag á fjallaráðstefnunni World Mountain Forum í Uganda. Á síðustu 40 árum hafa um 13.000 hektarar af skóglendi fjallsins eyðst vegna loftslagsbreytinga, m.a. í skógareldum, en áætlað er að þessir skógar hafi verið uppspretta drykkjarvatns fyrir milljón manns. Endurheimt skógarins bætir ekki aðeins vatnsstöðu og ræktunarmöguleika, heldur myndi hún einnig auðvelda uppbyggingu vatnsaflsvirkjana og styðja við ferðaþjónustu sem er gríðarlega mikilvæg fyrir hagkerfi nærliggjandi svæða.
(Sjá fréttasíðu Sameinuðu þjóðanna í dag).
Greinasafn fyrir merki: vatnsskortur
Erlend landbúnaðarfyrirtæki stuðla að vatnsskorti í Afríku
Mikil vatnsþörf korntegunda sem ræktaðar eru á svæðum sem erlend fyrirtæki hafa tekið á leigu í Afríku til landbúnaðarnota á sinn þátt í vaxandi vatnsskorti í álfunni og harðari samkeppni um vatnsauðlindina. Þetta kom fram í rannsókn vísindamanna við Háskólann í Lundi, sem sagt er frá í tímaritinu Proceedings of the National Academy of Sciences. Það sem af er öldinni hafa erlend fyrirtæki tekið á leigu stórar spildur í Afríku í þeim tilgangi að rækta þar ódýrar matjurtir, ódýrt timbur og ódýrt hráefni til framleiðslu á lífeldsneyti. Tegundirnar sem ræktaðar eru á þessum svæðum eru iðulega frekari á vatn en þær tegundir sem ræktaðar hafa verið á svæðunum til þessa. Þessu hefur fylgt stóraukin nýting á ferskvatni til vökvunar í stað regnvatns sem áður dugði að mestu leyti. Leigusamningar um land í Afríku eru gjarnan gerðir til allt að 99 ára og fela sjaldnast í sér nokkrar takmarkanir á vatnsnotkun.
(Sjá frétt Science Daily í dag).