Skaðleg flúorsambönd í barnaúlpum

barnejakke_160Sex barnaúlpur sem norsku neytendasamtökin (Forbrukerrådet) rannsökuðu á dögunum reyndust allar innihalda skaðleg flúorsambönd sem geta verið krabbameinsvaldandi eða haft áhrif á æxlun og þroska. Úlpa frá norska framleiðandanum Helly Hansen kom verst út, en hún innihélt meðal annars PFOA (perflúoroktansýru) ásamt mörgum fleiri flúorsamböndum. Notkun PFOA var bönnuð í Noregi á síðasta ári, en það útilokar ekki að efnið finnist í vörum sem framleiddar voru fyrir 2014. Flúorsamböndin sem um ræðir hafa m.a. verið notuð í föt, skó og matarumbúðir. Erfitt er fyrir neytendur að forðast efnin þar sem þessir vöruflokkir eru ekki endilega með innihaldsmerkingum. Efnin brotna hægt niður í líkamanum og geta meðal annars komist frá móður til barns í gegnum naflastreng og móðurmjólk. Norðmenn og Þjóðverjar hafa lagt til að notkun PFOA og líkra efna verði bönnuð innan ESB.
(Sjá frétt Forbrukerrådet 8. apríl).

Framleiðendur hætti notkun óþarfra flúorsambanda

fluor_160Hópur alþjóðlegra vísindamanna hefur skorað á framleiðendur að hætta notkun óþarfra flúorsambanda þar til meira verði vitað um möguleg heilsuskaðleg áhrif þeirra. Áskorunin er afrakstur alþjóðlegrar vísindaráðstefnu um flúorsambönd og hefur verið nefnd Helsingør yfirlýsingin. Flúorsamböndin sem um ræðir eru manngerð efni sem hrinda frá sér vatni, fitu og óhreinindum og hafa því þótt henta vel til notkunar í ýmsar neytendavörur, svo sem matarílát úr pappír. Efnin brotna hægt niður og safnast upp í lífverum auk þess sem talið er að þau geti valdið krabbameini, aukið kólesterólmagn, veikt ónæmiskerfið og haft áhrif á hormónaframleiðslu. Strangar reglur gilda um notkun tiltekinna flúorsambanda og telja höfundar yfirlýsingarinnar að þeim sé oft skipt út fyrir önnur flúorsambönd sem lítið sé vitað um. Því skora vísindamennirnir á framleiðendur að beita Varúðarreglunni við innleiðingu nýrra flúorsambanda og gæta þess jafnframt að efnin séu ekki notuð að óþörfu.
(Sjá frétt á heimasíðu Tækniháskóla Danmerkur (DTU) 27. ágúst).