Um 700 tegundir lífvera hafa orðið fyrir áhrifum af rusli í hafinu samkvæmt nýrri rannsókn sem Háskólinn í Plymouth kynnti á dögunum. Í rannsókninni var farið yfir tiltækar upplýsingar um lífverur sem hafa orðið fyrir barðinu á úrgangi í sjónum og fundust í þeirri leit heimildir um 44.000 lífverur sem flækst höfðu í rusli eða gleypt það. Um 92% af þessu rusli var plast, en algengt er að sjávarspendýr og fuglar flækist í plastreipum og fiskinetum eða gleypi plasteindir. Um 17% af umræddum tegundum reyndust vera á heimsválista IUCN yfir tegundir í útrýmingarhættu, þ.á m. Hawaii-munkaselurinn, Loggerhead sæskjaldbakan og gráskrofan. Aðstandendur rannsóknarinnar segja bein áhrif úrgangs á tegundir í útrýmingarhættu vera sérstakt áhyggjuefni, en þörf sé á auknum rannsóknum á áhrifum inntöku.
(Sjá frétt Science Daily 19. febrúar).
Greinasafn fyrir merki: IUCN
Ágengar tegundir enn meiri ógn en talið var
Ágengar framandi tegundir ógna lífræðilegri fjölbreytni, heilsu manna og hagkerfum jafnvel enn meira en áður var talið, ef marka má tvær nýjar skýrslu Umhverfisstofnunar Evrópu (EEA). Þar kemur m.a. fram að af þeim 395 tegundum evrópskra lífvera sem IUCN flokkar sem tegundir í bráðri útrýmingarhættu (e. critically endangered) séu 110 í hættu vegna ágengra framandi tegunda. Áætlað hefur verið að ágengar tegundir kosti Evrópu um 12 milljarða evra á ári (rúmlega 2.000 milljarða ísl. kr). Sem dæmi um þetta má nefna tjón á uppskeru af völdum Spánarsnigils og kostnað vegna zebrakræklings sem m.a. stíflar vatnssíur og kælivatnstanka.
(Sjá frétt á heimasíðu EEA í gær).
25 tegundir prímata í bráðri útrýmingarhættu
Tuttuguogfimm tegundir prímata eru í bráðri útrýmingarhættu samkvæmt nýrri skýrslu sem hópur alþjóðlegra náttúruverndarsamtaka gaf út í gær. Grípa þarf til tafarlausra aðgerða ef koma á í veg fyrir útdauða þessara tegunda. Til prímata teljast apar, apakettir og lemúrar, auk manna. Margar þessara tegunda gegna lykilhlutverki í viðhaldi líffræðilegrar fjölbreytni í skógunum þar sem þeir lifa, m.a. með dreifingu fræja. Án þeirra minnkar geta skóganna til að veita mönnum vistfræðilega þjónustu á borð við drykkjarvatn, fæðu og efni til lyfjagerðar. Í skýrslunni er einnig að finna góð tíðindi, því að enn hefur engin tegund prímata orðið útdauð frá því um 1900, og í nokkrum tilvikum hefur orðið fjölgun í stofnum.
(Sjá frétt á heimasíðu IUCN í gær)