Dove notar 15% minna plast í umbúðir

26179Umbúðir sturtusápu frá Dove innihalda framvegis 15% minna plast en áður. Með nýrri aðferð við þrýstimótun plasts er hægt að draga úr þéttleika plasteinda í umbúðunum, þannig að minna plast þurfi í hverja flösku. Aðgerðin er í takt við markmið framleiðandans um að helminga losun gróðurhúsalofttegunda og magn þess úrgangs sem verður til úr vörum og umbúðum, hvort tveggja miðað við árið 2020. Framleiðandinn hyggst gefa eftir einkarétt á umræddri tækni í janúar á næsta ári, þannig að öðrum fyrirtækjum verði frjálst að nota hana.
(Sjá frétt EDIE í dag).

HP notar umbúðir úr hálmi

25962_160Tölvurisinn Hewlett-Packard hefur tekið í notkun umbúðir úr hálmi á framleiðslustöðum sínum í Kína. Yfirleitt er hálmurinn brenndur til að rýma fyrir næstu uppskeru en nú er hann þess í stað nýttur til framleiðslu bylgjupappa og umbúða úr mótuðum pappamassa. Samkvæmt upplýsingum frá HP hefur framleiðsla umbúða úr hálmi í för með sér 90% minni vatnsnotkun, 40% minni orkunotkun og 25% minni losun koltvísýrings en hið hefðbundna framleiðsluferli þar sem pappamassi er unninn úr viði. Notkun hálms minnkar álag á nytjaskóga auk þess sem umbúðirnar eru léttari og skila því bæði umhverfislegum og fjárhagslegum sparnaði í flutningum. Þar að auki hefur þessi nýjung skapað störf og bætt afkomu bænda í sveitum Kína.
(Sjá frétt EDIE 3. mars).