Fyrsta vetnisstöðin við verslunarmiðstöð

SainsburySainsbury’s verslunarkeðjan mun síðar á þessu ári verða fyrsta fyrirtækið í Bretlandi sem kemur upp vetnisstöð fyrir viðskiptavini á bílastæði verslunarmiðstöðvar. Fjöldi vetnisbíla á götum Bretlands vex frá degi til dags og að sögn talsmanns Sainsbury’s er það sérstakt ánægjuefni að vera fyrstur til að bjóða viðskiptavinum upp á þjónustu af þessu tagi. Stöðin er hluti af verkefninu London Hydrogen Network Expansion (LHNE) sem er styrkt af ríkisstjórninni. Stjórnvöld í Bretlandi ákváðu nýlega að verja 11 milljónum sterlingspunda (tæplega 2,2 milljörðum ísl. kr.) til að byggja upp innviði fyrir vistvæn ökutæki í Bretlandi, þar af 7 milljónum punda í uppsetningu allt að 7 áfyllingarstöðva fyrir vetnisbíla.
(Sjá frétt EDIE 28. október).

Miðborg Lundúna án mengunar?

HaveyoupaidBoris Johnson borgarstjóri Lundúna kynnti í vikunni áform sín um að gera miðborgina að fyrsta mengunarsnauða borgarhverfi í heimi (e. Ultra Low Emission Zone) í þeim tilgangi að bæta loftgæði í borginni og stuðla að hraðari orkuskiptum í samgöngum. Ef áformin verða að veruleika mega aðeins ökutæki með lítinn sem engan útblástur aka um miðborgina á venjulegum vinnutíma. Umhverfisverndarsinnar hafa efasemdir um þessi áform, einkum ef þau verða ekki að fullu komin til framkvæmda fyrr en árið 2020. Þeir telja að grípa þurfi til aðgerða af þessu tagi án tafar.
(Sjá frétt EDIE 13. febrúar).

Innviðir fyrir vetni byggðir upp í London

Vetnisstöð EDIEÁ næstu þremur árum verður fyrsta samhæfða vetniskerfi Bretlands byggt upp í London. Miðpunkturinn í kerfinu verða nokkrar áfyllingarstöðvar fyrir vetnisbíla, þar sem vetni af endurnýjanlegum uppruna verður afgreitt með 700 bara þrýstingi. Jafnframt verða eldri stöðvar uppfærðar í 700 bör til að mæta fyrirsjáanlegri þróun vetnisbíla. Uppbygging kerfisins er samstarf nokkurra aðila, en verkefnið gengur undir nafninu London Hydrogen Network Expansion (LHNE). Í verkefninu felst einnig útvegun vetnisbíla, m.a. fólksbíla af Hyundai-gerð og Revolve sendibíla. Með tilkomu kerfisins verða vetnisknúnir flutningar að raunhæfum möguleika í London. Aðstandendur verkefnisins vonast til að það nýtist sem sýnidæmi og fyrirmynd annarra vetniskerfa sem byggð verða upp í Bretlandi og annars staðar í Evrópu í framtíðinni.
(Sjá frétt EDIE 30. janúar).