Í fyrradag hleyptu stofnanir Sameinuðu þjóðanna af stokkunum nýju átaki til að draga úr sóun matvæla. Átakið, sem hefur yfirskriftina „Think.Eat.Save“, beinist fyrst og fremst að neytendum, smásölu og veitingastöðum, en í þessum síðustu þrepum matvælakeðjunnar er áætlað að árlega sé hent um 300 milljónum tonna af ætum mat, m.a. vegna þröngrar túlkunar dagstimpla, útlitskrafna og of stórra skammta. Liður í átakinu er að halda úti upplýsingagáttinni www.thinkeatsave.org með yfirliti yfir stöðu mála og helstu verkefni sem í gangi eru á hverjum tíma til að draga úr sóun matvæla. Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNEP) og Matvæla- og landbúnaðarstofnunin (FAO) standa fyrir átakinu í samvinnu við fleiri aðila. Að mati FAO tapast að jafnaði um þriðjungur allra matvæla sem framleidd eru í heiminum, árlega að verðmæti um 1 billjón Bandaríkjadala (um 130 þúsund milljarðar ísl. kr).
(Sjá frétt á heimasíðu UNEP 22. janúar).
Greinasafn fyrir merki: sóun
Brýnt að draga úr sóun matvæla
Rannsóknir benda til að sóun matvæla eigi stóran þátt í hækkun matvælaverðs, minnkandi fæðuöryggi og loftslagsbreytingum. Sérfræðingar spá nú 15% hækkun matvælaverðs á heimsmarkaði fram í júní á næsta ári, en slík hækkun gæti haft verulegar pólitískar og félagslegar afleiðingar. Þetta verður þriðja „verðbólguskotið“ á matvælamarkaðnum á 5 árum, og má einkum skýra það með uppskerubresti í Bandaríkjunum, Rússlandi og Suður-Ameríku. Ljóst þykir að vandinn verði ekki leystur með aukinni framleiðslu, hvorki í lengd né bráð, heldur sé bætt nýting í matvælakeðjunni algjört lykilatriði til að tryggja nægjanlegt framboð og halda verðhækkunum í skefjum.
(Sjá frétt EDIE í gær).
Hver á lífseigasta hlutinn?
Umhverfisstofnun Danmerkur (Miljøstyrelsen) stendur nú fyrir samkeppni um lífseigasta hlutinn undir yfirskriftinni „Danmarks længstlevende“. Keppnin fer þannig fram að Danir senda inn myndir af hlutum sem hafa dugað þeim vel og láta gjarnan sögu hlutanna fylgja. Keppnin er hluti af átakinu „Notið meira, sóið minnu“ og er ætlað að beina athygli fólks að tilfinningalegu gildi hlutanna og þeim umhverfislega sparnaði sem fylgir því að fara vel með og láta hlutina endast í stað þess að kasta þeim fyrir róða og kaupa nýja.
(Sjá nánar í frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen í gær).