Efni í sólarvörn drepur kóralrif

sunscreen-clip-art-by-connie-for-blog (160x221)Efnið Oxýbensón (einnig þekkt sem BP3), sem notað er sem útblámasía (e. UV-filter) í um 3.500 mismunandi tegundir af sólarvörn, á þátt í eyðileggingu kóralrifja að því er fram kemur í rannsókn sem sagt er frá í ritinu Archives of Environmental Contamination and Toxicology. Efnið getur verið banvænt fyrir unga kóralla og skaðað þá eldri. Þetta þykir skýra hvers vegna svo lítið af ungum kóröllum er að finna í kóralrifjum nálægt ferðamannastöðum, en á slíkum stöðum er styrkur efnisins eðlilega hæstur. Efnið virðist skaða kóralla í mjög lágum styrk, þ.e. allt niður í 62 þúsundmilljörðustuhluta sem jafngildir því að einum dropa væri blandað í sex og hálfa sundlaug af ólympískri stærð. Styrkurinn við Hawaii og í Karabíska hafinu mælist 12 sinnum hærri en þetta.
(Sjá frétt PlanetArk í gær).

Hormónaraskandi efni í sólarvörn

fisk (160x90)Efnið bensófenón-3 (BP3), sem notað er sem útblámasía (e. UV-filter) í ýmsar gerðir sólarvarnar, er hormónaraskandi að því er fram kemur í nýrri rannsókn vísindamanna við Syddansk Universitet í Odense. Þegar áhrif efnisins á fiska voru skoðuð kom í ljós að það hamlaði þroskun kynkirtla og leiddi til óeðlilega hás hlutfalls kvenfiska á kostnað karldýranna. Umhverfisstofnun Danmerkur (Miljøstyrelsen) kostaði rannsóknina og er nú að kanna hvort niðurstöðurnar nýtist til að fá takmarkanir á notkun efnisins samþykktar innan Evrópusambandsins. BP3 er ekki meðal algengustu tegunda af útblámasíum, en þeim sem vilja kaupa sólarvörn án efnisins er bent á að halda sig við Svansmerktar snyrti- og húðvörur.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen 5. október).

Sólhlífðarföt í stað sólarvarnar

UVSólhlífðarfatnaður fyrir börn er laus við skaðleg efni samkvæmt nýlegri könnun dönsku neytendasamtakanna Tænk. Hins vegar finnast hormónaraskandi efni í flestum tegundum sólarvarnar sem markaðsett er fyrir börn. Venjulegur fatnaður inniheldur oft á tíðum skaðleg efni, en sólhlífðarfatnaður virðist innihalda mun minna eða nánast ekkert af slíku. Tænk mælir því með slíkum fatnaði sem eiturefnafríum valkosti sem verndar börn gegn útfjólubláum geislum sólar og sparar foreldrum um leið fyrirhöfnina að bera sólarvörn á börnin.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk 15. maí).