Býflugnabændur kæra Umhverfisstofnun Bandaríkjanna

Honeybees PlanetArk2Hópur býflugnabænda og nokkur frjáls félagasamtök vestanhafs, þar á meðal Sierraklúbburinn, lögðu í gær fram kæru á hendur Umhverfisstofnun Bandaríkjanna fyrir að grípa ekki til verndaraðgerða vegna þeirrar hættu sem kærendur segja býflugnastofnum stafa af skordýraeitri af flokki neónikótínoíða. Í kærunni er þess m.a. krafist að stofnunin dragi til baka leyfi til notkunar á klóþíanidín og þíametoxam, sem bæði tilheyra þessum flokki eiturefna. Sérstaklega er kært fyrir útgáfu skilyrtra leyfa sem gera framleiðendum kleift að setja ný eiturefni á markað fyrr en ella, en síðustu ár munu tveir þriðju allra nýrra varnarefna í Bandaríkjunum hafa verið sett á markað á grunni slíkra leyfa. Neónikótínoíð hafa verið mikið notuð í Bandaríkjunum síðan um miðjan síðasta áratug og frá sama tíma hafa orðið mikil afföll á býflugnabúum. Dæmi eru um 50% fækkun á síðasta ári einu og sér. Framleiðendur efnanna benda hins vegar á að skaðsemi þeirra hafi ekki verið sönnuð.
(Sjá frétt PlanetArk í dag).

Neónikótínoíð ekki sett á bannlista

Avaaz Bees GuardianSíðastliðinn föstudag komu fulltrúar Breta, Þjóðverja og nokkura fleiri aðildarríkja Evrópusambandsins í veg fyrir að sérfræðinganefnd sambandsins um fæðukeðjur og heilsu dýra samþykkti tillögu Framkvæmdastjórnar ESB um tveggja ára bann við notkun neónikótínoíðs sem skordýraeiturs, þrátt fyrir að Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) hafi gefið út það álit að eitrið stefni býflugum í óásættanlega hættu og því sé ekki forsvaranlegt að nota það við ræktun plöntutegunda sem býflugur sækja í. Framleiðendur eitursins fagna þessari niðurstöðu, en umhverfisverndarsinnar og ýmsir vísindamenn og stjórnmálamenn eru að sama skapi vonsviknir. Býflugur skipta gríðarlegu máli fyrir fæðuframleiðslu í heiminum, en framleiðendur eitursins telja þó ástæðulaust að banna það, þar sem ekki liggi fyrir sannanir um skaðsemi þess.
(Sjá frétt The Guardian 15. mars).