Í þessari viku greiða borgaryfirvöld í San Fransiskó atkvæði um tillögu um að innleiða bann við sölu á flöskuvatni í plastflöskum. Verði tillagan samþykkt mun áhrifa hennar byrja að gæta í haust, en þá verður stofnunum borgarinnar óheimilt að kaupa plastflöskuvatn, auk þess sem þessi varningur verður bannaður á öllum innanhússamkomum í húsnæði borgarinnar. San Fransiskó yrði með þessu fyrsta stóra borgin sem tekur þetta skref. Talsmenn bannsins benda á að notkun á plastflöskum undir vatn feli í sér mikla sóun auðlinda og að plastflöskur þurfi allt að 1.000 árum til að brotna niður í náttúrunni. Aðrir óttast að bannið beini neyslu fólks frá flöskuvatni yfir í gosdrykki, ef þeir verða áfram seldir í plastflöskum.
(Sjá frétt PlanetArk 6. mars).