Stærsta sólarorkuver heims gangsett í Marokkó

5609 (160x96)Í gær kveikti Múhammeð VI, konungur Marokkó, á fyrsta áfanga sólarorkuvers sem verður það stærsta í heimi þegar það verður fullbyggt árið 2018. Verið er staðsett í útjaðri Sahara-eyðimerkurinnar við borgina Ouarzazate og verður uppsett afl þess samtals 580 MW þegar upp verður staðið, en fyrsti áfanginn er 160 MW. Fullbúið á verið að geta séð um 1,1 milljón manna fyrir nægri raforku og með tilkomu þess mun losun kolefnis út í andrúmsloftið minnka um hundruð þúsunda tonna á ári. Um 4 milljarðar Bandaríkjadala (um 500 milljarðar ísl. kr.) hafa verið lagðir í verið, en bygging þess og annarra stórra sólarorkuvera víða um heim er talin geta lækkað framleiðslukostnað raforku frá sólarsellum í náinni framtíð um allt að 15% fyrir hver 5 GW sem bætast við heildaraflið. Stjórnvöld í Marokkó stefna að því að árið 2020 verði hlutdeild endurnýjanlegrar orku í landinu komin í 42% og í 52% árið 2030. Áformin verða væntanlega kynnt nánar á næstu ríkjaráðstefnu Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (COP22) sem haldin verður í Marokkó 7.-18. nóvember nk.
(Sjá frétt The Guardian í gær).

Koltvísýringi breytt í „demanta af himnum“

150819083117_1_540x360 (160x160)Hópur efnafræðinga við George Washington háskólann telur sig hafa fundið hagkvæma aðferð til að framleiða koltrefjar úr koltvísýringi úr andrúmsloftinu. Aðferðin byggir á rafgreiningu, þar sem andrúmsloft er leitt niður í 750 stiga heita raflausn með bráðnum karbónötum innan um rafskaut úr stáli og nikkel. Við þessar aðstæður klofna koltvísýringssameindir í kolefni og súrefni, kolefnið sest á stálskautið og myndar trefjar sem hægt er að fjarlægja og nota til framleiðslu á ýmsum varningi. Gert er ráð fyrir að sólarorka sé notuð við framleiðsluna og er orkukostnaður áætlaður samtals um 1.000 dollarar á tonnið, sem er aðeins brot af söluverðmæti afurðarinnar. Framleiðslan er enn á tilraunastigi, en með því að nýta sólarorku á 10% af flatarmáli Sahara-eyðimerkurinnar væri að sögn aðstandenda hægt að fjarlægja nógu mikinn koltvísýring úr andrúmsloftinu á 10 árum til að styrkur efnisins verði sá sami og hann var fyrir upphaf iðnbyltingarinnar.
(Sjá frétt Science Daily 19. ágúst).