Styrkur örplasts í sjó og fiskum í Eystrasaltinu hefur lítið breyst síðustu 30 árin, að því er fram kom í nýrri rannsókn sem sagt er frá í tímaritinu Science of the Total Environment. Þessar niðurstöður koma mjög á óvart þar sem plastframleiðsla í heiminum eykst ár frá ári og nú er áætlað að 5-15 milljón tonn af plasti lendi í sjónum ár hvert. Í rannsókninni, sem unnin var af vísindamönnum frá Danmörku og Þýskalandi, voru borin saman sýni sem tekin voru úr Eystrasaltinu á tímabilinu 1987-2015. Í ljósi niðurstaðnanna velta menn því fyrir sér hvað hafi orðið um plastið, t.d. hvort það hafi sokkið, hvort einhverjar lífverur hafi náð að brjóta það niður eða hvort það hafi flotið burt úr Eystrasaltinu með straumum.
(Sjá frétt Science X 24. október).