Styrkur krabbameinsvaldandi efna í blóði hárgreiðslufólks fer hækkandi eftir því sem viðkomandi einstaklingar vinna oftar með hárliti og permanent. Þetta kemur fram í grein sem birtist nýlega í tímaritinu Occupational and Environmental Medicine. Svo virðist sem krabbameinsvaldandi efnið tólúidín leynist enn í efnum sem notuð eru á hárgreiðslustofum, en tólúidín er á bannlista Evrópusambandsins yfir efni í snyrtivörum vegna krabbameinsvaldandi eiginleika þess. Hárgreiðslufólk er skilgreint sem áhættuhópur vegna nálægðar við krabbameinsvaldandi efni. Til að draga úr áhættunni er fólk í greininni hvatt til að meðhöndla hárliti og permanentefni aldrei með berum höndum.
(Sjá frétt Science Daily í dag).