Sérfræðingum hjá breska fyrirtækinu Air Fuel Synthesis (AFS) hefur fyrstum manna tekist að framleiða bensín í umtalsverðu magni úr andrúmslofti. Lofti er þá blásið í gegnum súlu sem inniheldur vítissóda. Koltvísýringur úr loftinu binst sódanum og myndar natríumkarbónat, en er síðan losaður aftur með rafgreiningu og látinn hvarfast við vetni, sem fengið er með rafgreiningu á vatni. Þannig fæst syngas sem unnið er í metanól og síðan bensín. Verkefnið er komið á það stig að rætt er um byggingu verksmiðju til að framleiða bensín af þessu tagi í stórum stíl. Framleiðslan getur tekið mið af framboði á raforku á hverjum tíma og þannig nýst sem orkugeymsla, umfram hið hefðbundna hlutverk eldsneytis. Ef raforkan er af endurnýjanlegum uppruna telst eldsneytið kolefnishlutlaust.
(Sjá frétt EDIE 15. október).