Hálf milljón Svía í réttlætiskaffitíma

Í dag hópast Svíar í sameiginlegan réttlætiskaffitíma um land allt, eða „Fairtrade fika“ eins og viðburðurinn nefnist á frummálinu. Þetta er fjórða árið í röð sem efnt er til slíks kaffitíma í Svíþjóð í þeim tilgangi að minna á hversu mikil áhrif hægt er að hafa á lífskjör í þróunarlöndunum með því einu að velja rétt kaffi og með því. Þátttakendur í þessum viðburði þurfa að skrá sig á heimasíðunni http://fairtradechallenge.se, og að sjálfsögðu þurfa réttlætismerktar („Fairtrade“) vörur að vera á boðstólum. Um leið er þetta keppni milli fyrirtækja, skóla og sveitarfélaga um mestu þátttökuna miðað við höfðatölu. Um miðnætti í gærkvöldi að sænskum tíma höfðu 534.658 manns skráð sig til þátttöku. Mest var þátttakan í Munkfors, þar sem skráðir þátttakendur voru orðnir álíka margir og íbúar sveitarfélagsins.
(Sjá fréttatilkynningu Fairtrade í Svíþjóð 16. október).